Endurmat á afleiðingum slyss fyrir örorkunefnd

Í dag féll dómur í Hæstarétti Íslands í máli sem Þorsteinn Einarsson lögmaður hjá TORT rak fyrir skjólstæðing lögmannsstofunnar. Aðilar málsins stóðu sameiginlega að mati hins slasaða á afleiðingum umferðarslyss. Aðila greindi á um eðli þeirra áverka sem hinn slasaði hlaut á hægri öxl í slysinu. Skjólstæðingur TORT taldi afleiðingarnar vanmetnar í matsgerð og freistaði þess að fara fyrir örorkunefnd í endurmat á afleiðingum slyssins. Niðurstaða fyrri álitsgerðar var sú að miski stefnanda vegna slyssins væri 2 stig en örorka engin. Örorkunefnd komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að meta bæri miska stefnanda 6 stig en örorku 10%. Hinn slasaði gerði kröfu um bætur á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar á hendur tryggingafélaginu. Tryggingafélagið hafnaði greiðslu bóta og taldi að álit örorkunefndar yrði ekki lagt til grundvallar nýju uppgjöri. Hinn slasaði taldi að tryggingafélaginu væri óheimilt að virða að vettugi niðurstöðu örorkunefndar sem væri lögbundið úrræði til þess að hnekkja matsgerð sérfræðinga sem fyrir liggur. Hæstiréttur sneri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms við, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, og taldi tjón slasaða rétt metið í álitsgerð örorkunefndar. Unnt er að lesa dóminn í heild sinni á heimasíðu dómsins: https://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=771f8e92-6456-4929-811a-f25a44b9ec0e