Ómerkt glerhurð
Umbjóðandi TORT varð fyrir líkamstjóni á vinnustað. Tildrög slyssins voru þau að starfsmaður gekk á glerhurð þegar hún mætti til vinnu sinnar. Hurð þessi hafði alltaf verið opin á vinnutíma en umrætt sinn var hún lokuð og læst. Engar merkingar voru á hurðinni og dimmt var í anddyrinu sem olli því að tjónþoli gekk beint á hurðina og hlaut líkamstjón.
Sjóvá sem bar bótaábyrgð á slysinu skerti bótarétt tjónþola um 1/4 hluta þar sem félagið taldi hana hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn. Byggði félagið á því að starfsmenn yrðu sjálfir að kveikja ljós þegar þeir mæta til vinnu og hefði tjónþola átt að vera fullljóst að glerhurðir væru á vinnustaðnum þar sem hún væri búin að ganga þar um daglega í tvær vikur.
Tjónþoli kærði afstöðu félagsins til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Var það mat nefndarinnar að ósannað væri að tjónþoli hefði mátt gera sér grein fyrir að dyrnar væru lokaðar umrætt sinn og þá væri einnig vafi um hvernig lýsingu var háttað. Félagið hafði ekki sýnt fram á að stórkostlegt gáleysi hafi verið fyrir hendi. Var niðurstaða nefndarinnar því sú að tjónþoli ætti óskertan rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda hjá félaginu.