Slys þjálfara í fimleikahringjum líkamsræktarstöðvar
Umbjóðandi TORT varð fyrir líkamstjóni við vinnu sína í æfingasal í líkamsræktarstöð, þar sem hann starfaði sem þjálfari. Hann var að prufukeyra æfingu sem hann hugðist láta þátttakendur á æfingu í Crossfit gera. Æfingin var gerð í fimleikahringjum, en umbjóðandi TORT varð fyrir slysinu þegar annar strappinn á hringnum slitnaði með þeim afleiðingum að hann féll harkalega í gólfið á höfuðið og herðar.
TORT gerði, fyrir hönd umbjóðandans, kröfu í ábyrgðartryggingu vinnuveitandans hjá Sjóvá, sem hafnaði bótaskyldu á þeim grundvelli að slysið yrði ekki rakið til saknæms vanbúnaðar sem vinnuveitandi umbjóðanda bæri ábyrgð á.
Tjónþoli höfðaði því mál til viðurkenningar á bótaskyldu vegna slyssins. Byggði krafa hans á því að öryggi hans hefði ekki verið tryggt umrætt sinn og á því hafi vinnuveitandi hans borið ábyrgð.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var niðurstaðan sú að tjónþola hefði tekist að sýna fram á að slys hans hafi verið að rekja til saknæmrar vanrækslu vinnuveitanda á að tryggja öryggi notenda þess búnaðar sem um ræddi og tókst Sjóvá ekki að sýna fram á að tjónþoli væri meðábyrgur. Taldi héraðsdómur að slysið hafi m.a. orðið vegna þess að frágangur strappans sem fimleikahringirnir voru festir með hafi ekki verið í samræmi við leiðbeiningar frá framleiðanda um það hvernig uppsetningu skyldi hagað til þess að forða líkamstjóni við notkun. Slysið var því bótaskylt úr ábyrgðartryggingu vinnuveitandans.
Ólafur Örn Svansson lögmaður flutti málið.
Unnt er að lesa dóminn í heild sinni á heimasíðu héraðsdóms hér.