Sliskja eftirvagns féll saman

Umbjóðandi TORT varð fyrir líkamstjóni við vinnu sína þegar verið var að reisa sliskjur með stjórnborði sem staðsett var aftan við vinstra afturhjól eftirvagns. Féll önnur sliskjan saman og lenti á höfði hans. Hlaut hann við það margþætta áverka.

Sjóvá sem bótaábyrgð bar á slysinu skerti bótarétt tjónþola um 1/3 hluta þar sem félagið taldi hann hafa valdið slysinu með stórkostlegu gáleysi með því að ganga undir sliskjuna þegar verið var að reisa hana. Byggði félagið á því að starfsmaðurinn hafi verið vanur að vinna í kringum þann búnað sem notaður var þegar slysið varð. Hafi honum ekki geta dulist sú hætta að ganga undir sliskjuna þegar verið var að hífa hana.

Tjónþoli kærði afstöðu félagsins til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Taldi nefndin að við mat á því hvort tjónþoli hafi orðið meðvaldur af tjóninu með stórkostlegu gáleysi yrði við sakarmatið að líta til allra aðstæðna. Var það mat nefndarinnar að um var að ræða óhappatilvik sem enginn gat séð fyrir. Því yrði ekki talið að tjónþoli hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi þegar hann gekk undir sliskjuna umrætt sinn. Þá hafði félagið ekki sýnt fram á að það væri bannað eða andstætt almennri vitneskju eða venju við starfið að ganga undir sliskjur eftirvagna þegar þær eru uppreistar þannig að það ætti að leiða til skerðingar á bótarétti hans skv. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar. Var það niðurstaða nefndarinnar að tjónþoli ætti óskertan rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar hjá félaginu.