Vinnuslys í laxeldisstöð

Umbjóðandi TORT varð fyrir alvarlegu vinnuslysi í starfi sínu í laxeldisstöð þegar hann datt niður úr stiga en stiginn hafði verið fjarlægður af samstarfsmanni og komið fyrir aftur á ófullnægjandi hátt á meðan umbjóðandi TORT vann á millilofti. Hlaut hann alvarlegt líkamstjón vegna fallsins.

Þar sem vinnuveitandi umbjóðanda var ekki með ábyrgðartryggingu gerði TORT, fyrir hönd umbjóðandans, kröfu beint á vinnuveitandann til viðurkenningar á bótaskyldu, sem hafnaði bótaskyldu með bréfi um starfslok umbjóðandans.

Tjónþoli höfðaði þá mál til viðurkenningar á bótaskyldu fyrir héraðsdómi Vesturlands. Vinnuveitandinn byggði á því að slysið yrði eingöngu rakið til óhappatilviks eða eigin sakar tjónþola. Héraðsdómur taldi að vinnuveitandanum hafi ekki tekist að sanna að slysið hafi verið óhappatilvik en vinnuveitandinn tilkynnti ekki slysið til Vinnueftirlitsins, líkt og honum bar skylda til að gera á grundvelli 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Taldi héraðsdómur Vesturlands að rannsókn Vinnueftirlitsins á slysinu hefði getað útilokað það að einhverjum vanbúnaði hefði verið um að kenna, en einnig hefði rannsókn á slysinu getað varpað ljósi á eigin sök tjónþola. Var sönnunarbyrðin því lögð á vinnuveitandann og bar vinnuveitandinn ábyrgð á þessum skorti á gögnum í málinu. Þá taldi dómurinn að engar forsendur væru í málinu til þess að láta tjónþola bera hluta af tjóni sínu sjálfur.

Niðurstaða héraðsdóms var því sú að slysið væri bótaskylt og að vinnuveitandi tjónþola bæri bótaábyrgð á því.

Stefán Geir Þórisson lögmaður flutti málið.

Unnt er að lesa dóminn í heild sinni á heimasíðu héraðsdóms hér.