Eldfjallatilraun leiddi til bótaskyldu
Þann 16. nóvember sl. féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem Ingibjörg Pálmadóttir lögmaður hjá Tort flutti fyrir skjólstæðing lögmannsstofunnar gegn Vátryggingarfélagi Íslands til viðurkenningar á bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu Reykjavíkurborgar.
Málavextir voru þeir að skjólstæðingur Tort varð fyrir brunaslysi þegar hún var 14 ára gömul. Hún var þá nemandi í grunnskóla og slysið átti sér stað þegar hún sótti kennslu í efnafræði ásamt 15 öðrum samnemendum.
Í kennslustundinni framkvæmdi kennarinn efnafræðitilraun, svokallaða eldfjallatilraun, þar sem blandað var saman sandi, sykri, lyftidufti og etanóli. Var tilgangur tilraunarinnar að sýna áhrif efnahvarfa með því að líkja eftir eldgosi. Kennarinn brýndi fyrir nemendunum hættueiginleika etanóls, þ.m.t. hversu eldfimur vökvinn væri, og að enginn nema hann sjálfur mætti meðhöndla etanólið.
Eftir að kveikt hafði verið í tilrauninni en meðan beðið var eldgoss lagði kennarinn etanólbrúsann frá sér á kennaraborðið og gekk síðan á milli nemendahópa við hin skólaborðin í skólastofunni. Eftir að kennarinn hafði vikið frá skólaborðinu með eldgostilrauninni tók einn nemandi í stofunni etanólbrúsann í óleyfi og skvetti á eldfjallið þannig að upp blossaði eldur með sprengingu. Við þetta barst eldur að kviði umbjóðanda Tort þannig að hún hlaut skaða af.
VÍS hafnaði bótaskyldu í málinu á þeim grundvelli að slysið yrði ekki rakið til skaðabótaskyldrar háttsemi sem skólinn eða starfsmenn hans bæru ábyrgð á. Slysið væri alfarið að rekja til háttsemi annars nemanda sem brotið hafi gegn afdráttarlausu banni kennarans og kennarinn hafi með engu móti mátt gera sér grein fyrir þeirri fyrirætlun nemandans.
Tort byggði á því fyrir hönd skjólstæðings síns að skólinn bæri skaðabótaábyrgð á slysinu enda séu sérstaklega ríkar kröfur gerðar til þeirra sem hafi umsjón með börnum og unglingum og skólayfirvöldum skylt að tryggja öryggi nemenda við skyldunám. Þannig hafi sérstaklega ríkar skyldur hvílt á kennaranum og skólastjórnendum til að tryggja öryggi barnanna og að ekki stafaði slysahætta af tilrauninni, einnig þannig að nemendur gætu ekki valdið öðrum nemendum tjóni í því sambandi. Fyrirsjáanleg hætta hafi verið á tjóni og ef tjón yrði þá gæti það orðið umfangsmikið. Ríkar kröfur hafi orðið að gera um örugga vörslu hins eldfima efnis.
Í dómi héraðsdóms var fallist á málatilbúnað Tort og bótaskylda staðfest. Unnt er að lesa dóminn í heild sinni á heimasíðu héraðsdóms hér.