á ég rétt á bótum vegna slyss

Á ég rétt á bótum vegna slyss?

Ef þú hefur orðið fyrir slysi og býrð við einhverjar afleiðingar, hvort sem þær voru tímabundnar eða varanlegar, eru umtalsverð líkindi fyrir því að þú eigir rétt á bótum.

Ef þú hefur slasast vegna skráningarskylds ökutækis (umferðarslys/bílslys) eru allar líkur á því að þú eigir bótarétt. Það á við hvort sem þú varst farþegi, bílstjóri eða ekið var á þig t.d. gangandi eða hjólandi. Þá gildir sama um mótorhjól og bíla. Bótaréttur tjónþola á hendur tryggingafélögum vegna umferðarslysa er mjög ríkur. Engin ætti að láta að vera að leita réttar síns vegna umferðarslyss þó svo að afleiðingarnar séu ekki alvarlegar.

Ef þú hefur orðið fyrir vinnuslysi eru jafnframt allar líkur á því að þú eigir rétt á bótum. Það ræðst af því að vinnuveitanda ber samkvæmt kjarasamningi að tryggja starfsmenn sína. Hvernig slysið átti sér stað á að jafnaði ekki að hafa áhrif á rétt þinn til bóta. Ef slysið átti sér stað vegna saknæmrar háttsemi, t.d. vegna þess að annar starfsmaður er valdur að slysinu eða öryggisbúnaður er ábótavant kann jafnframt að vera að þú eigir rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda. Bótaréttur reiknast þá eftir skaðabótalögum líkt og gildir um umferðarslys og bótarétturinn því mjög ríkur. Þá kann að vera að þú eigir líka rétt á bótum frá Sjúkratryggingum Íslands. Hér er því að mörgu að huga. Dæmi um vinnuslys eru hálkuslys, slys vegna notkunar tækja eða einfaldlega fallslys á leið til eða frá vinnu. Í tilviki sjómanna þá eru þeir tryggðir sérstaklega vegna líkamstjóns um borð í skipum.

Ef þú hefur slasast í frítíma getur þú einnig átt rétt á bótum ef þú ert með slysatryggingu t.d. í gegnum fjölskyldutryggingu eða sérstaka slysatryggingu. Þá getur verið að þú njótir trygginga í frítíma í gegnum kjarasamning þinn enda þótt þú sért ekki í vinnu, t.d. ef þú færð laun frá ríkinu eða sveitarfélagi. Sama rétt njóta margar aðrar starfsstéttir. Þá getur verið að annar beri ábyrgð á tjóni sem á sér stað í frítíma t.d. vegna vanbúnaðar. Algeng frítímaslys eru slys við heimilisstörf, hálkuslys, reiðhjóla- og rafhlaupahjólaslys svo eitthvað sé nefnt.

Ef þú hefur orðið fyrir slysi ráðleggjum við þér að ráðfæra þig fyrst við okkur þar sem bótaréttur getur ráðist af því hvort tilkynnt sé um slysið innan tiltekins frests sem getur í sumum tilvikum verið eitt ár. Í öðrum tilvikum getur verið hægt að sækja bætur í nokkur ár eftir slys.

Endilega hafðu samband við okkur og við hjálpum þér að leita réttar þíns.