Ótengd hurðapumpa leiddi til bótaskyldu.

Þann 9. apríl sl. féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem Ingibjörg Pálmadóttir lögmaður hjá Tort flutti fyrir skjólstæðing lögmannsstofunnar gegn Vátryggingafélagi Íslands til viðurkenningar á bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu rekstraraðila veitingastaðar.

Málavextir voru þeir að skjólstæðingur Tort hugðist ganga inn á veitingastað þegar vindhviða feykti upp útidyrahurð staðarins með þeim afleiðingum að skjólstæðingur Tort féll aftur fyrir sig niður tröppur og slasaðist alvarlega. Í málinu lá fyrir að hurðapumpa útidyrahurðarinnar var ótengd þegar lögreglu bar að garði eftir slysið.

Af hálfu lögmannsstofunnar var byggt á því að ríkar skyldur hvíli á  rekstraraðilum veitingastaða að gera ráðstafanir sem sanngjarnar megi teljast til að tryggja öryggi þeirra sem þar eiga leið um. Í dómi héraðsdóms var fallist á þau sjónarmið og talið að rekstraraðili veitingastaðarins hefði sýnt af sér saknæma vanrækslu með því að hafa hurðapumpuna ótengda umrætt sinn. Var því fallist á bótarétt skjólstæðings Tort.

Unnt er að lesa dóminn í heild sinni á heimasíðu héraðsdóms:

https://heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=6699e883-114f-487f-b28e-b9ceb9fa54fb

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *