Dómstóll hafnar árslaunaviðmiðun sem tryggingafélag lagði til grundvallar bótauppgjöri.

Þann 12. maí sl. féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem Ingibjörg Pálmadóttir lögmaður hjá Tort flutti fyrir skjólstæðing lögmannsstofunnar gegn Verði tryggingum hf. vegna afleiðinga umferðarslyss.

Við uppgjör bóta í málinu hafði verið deilt um hvaða árslaunaviðmið ætti að nota við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku. Tryggingarfélagið vildi taka mið af meðaltekjum starfsstéttar þeirrar sem skjólstæðingur Tort tilheyrði að frádregnum 20% vegna þess að hann hafði áður verið metinn með samtals 20% varanlega örorku vegna fyrri slysa. Því vildi skjólstæðingur Tort ekki una og krafðist þess að við útreikning bóta yrði tekið mið af óskertum meðallaunum starfsstéttarinnar sem hann tilheyrði nú.

Niðurstaða héraðsdóms var sú að ósannað væri að afleiðingar fyrri slysa sem skjólstæðingur Tort hafði orðið fyrir hafi hamlað vinnufærni hans þegar hann lenti í því slysi sem um var deilt þannig að draga bæri frá árslaunaviðmiði 20% vegna áður metinnar örorku eða lægra viðmið. Var því fallist á aðalkröfu skjólstæðings Tort um að miða við óskertar meðaltekjur starfsstéttarinnar.

Með dómi héraðsdóms var tryggingarfélaginu gert að greiða skjólstæðingi Tort rúmlega 3.500.000 kr. í bætur til viðbótar þeim bótum sem félagið hafði áður greitt auk þess sem félagið var dæmt til að greiða vexti, dráttarvexti og málskostnað. 

Hægt er að nálgast dóminn í heild sinni á heimasíðu héraðsdóms:

https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=a80397b2-2e0c-446c-a0f6-1f1e90a3e899

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *