Tryggingafélag verktaka bótaskylt gagnvart barni sem slasaðist á byggingarsvæði.

Þann 15. mars sl. féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem Ingibjörg Pálmadóttir lögmaður hjá Tort flutti fyrir skjólstæðing lögmannsstofunnar gegn tryggingarfélaginu TM til viðurkenningar á bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu byggingarverktaka.

Málavextir voru þeir að skjólstæðingur Tort slasaðist þegar hann fór inn á byggingarsvæði við grunnskóla til þess að ná í bolta sem hafði endað þar eftir leik barna á sparkvelli sem staðsettur var við hliðina á byggingarsvæðinu. Nánar tiltekið þá slasaðist hann þegar stórgrýti rúllaði niður malarhrúgu sem hann var staddur á með þeim afleiðingum að grjótið fór yfir bak hans og höfuð og endaði ofan á fótlegg hans.

Dómurinn sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni taldi að slysið yrði rakið til gáleysis af hálfu byggingarverktakans við frágang á svæðinu og var fallist á bótarétt skjólstæðings Tort.

Unnt er að lesa dóminn í heild sinni á heimasíðu héraðsdóms:

https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=07a61064-e3ea-4f67-b057-5fac0579b3f3