Öryrki á rétt á dagpeningum úr slysatryggingu

Þann 25. ágúst sl. féll úrskurður hjá Úrskurðarnefnd vátryggingamála máli sem Helgi Birgisson lögmaður hjá TORT rak á hendur tryggingafélagi um bótarétt úr slysatryggingu. Skjólstæðingur lögmannsstofunnar hafði slasast í frítíma og var metin til 25% örorku og tímabundið 100% óvinnufær í 6 mánuði. Tryggingafélagið greiddi örorkubætur en hafnaði því að slasaða ætti rétt til dagpeninga vegna tímabundinnar óvinnufærni þar sem hún væri á fullum örorkulífeyri. Til að eiga rétt á dagpeningum þurfti hún að vera á vinnumarkaði. Þeim rökum tryggingafélagsins hafnaði úrskurðanefndin. Hún sagði að réttur til dagpeninga úr slysatryggingunni færi eftir læknisfræðilegu mati á óvinnufærni og því skipti ekki máli þótt tjónþoli væri öryrki og því ekki á vinnumarkaði.