Einkamál höfðað á hendur fyrrum sambýlismanni til greiðslu bóta. Hvaða lærdóm má draga af málinu?

Á föstudaginn síðastliðinn gekk dómur í máli Rúnu Guðmundsdóttur gegn fyrrum sambýlismanni sínum vegna heimilisofbeldis í garð hennar aðfaranótt 13. maí 2015.

Rúna lagði samdægurs fram kæru hjá lögreglu eftir að hafa hlotið aðhlynningu á bráðamóttöku LSH. Skömmu síðar kom í ljós að mistök höfðu átt sér stað við skýrslutöku af henni sem varð til þess að hún þurfti að fara að nýju til lögreglunnar til skýrslutöku. Undir þeim aðstæðum upplýsir hún að hún sjái ekki ástæðu til að halda sig við kæruna en þar var hún að horfa til þess álags sem fylgdi málinu. Hér ber að hafa í huga að ekki hefði komið til þess að hún þyrfti að taka afstöðu til kærunnar nema af því að mistök höfðu orðið þegar hún mætti í fyrsta sinn. Hún sér þegar eftir þessu en treystir sér ekki til lögreglunar strax þar sem hún var í sumarfríi með börnum sínum og vildi ekki að þau upplifðu álagið sem þessu fylgdi.

Hinn 22. júlí 2015 fór hún að nýju til lögreglu og óskaði þess að málinu yrði haldið til streitu.

Ákæra var gefin út 7. mars 2017 þar sem fyrrum sambýlismaður hennar var ákærður fyrir líkamsárás og háttsemin heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Við þingfestingu ákærumálsins 23. mars 2017 neitaði fyrrum sambýlismaðurinn sök og krafðist frávísunar málsins. Frávísunarkrafan byggði á því að honum hafi verið tilkynnt af lögreglu að rannsókn málsins hafi verið hætt í kjölfar þess að Rúna hafði verið kölluð að nýju inn til skýrslugjafar eftir mistök lögreglu. Þetta var í fyrsta sinn sem hún hafði heyrt að lögreglan hafði tilkynnt fyrrum sambýlismanninum að rannsókn málsins væri hætt.

Með úrskurði héraðsdóms 24. maí 2017 var hinu opinbera máli á hendur fyrrum sambýlismanni hennar vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að ekki hefði verið sýnt fram á að lagaskilyrði hefðu verið fyrir hendi til að taka rannsókn málsins upp að nýju.

Ákæruvaldið lýsti yfir við uppkvaðninguna að það hygðist kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Þann 1. júní 2017 var kveðinn upp dómur Hæstaréttar í máli nr. 331/2017 þar sem málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem ákæruvaldið hafði ekki kært málið innan kærufrests, en yfirlýsing fulltrúa ákæruvalds við uppkvaðningu úrskurðar í héraði taldist ekki fela í sér kæru heldur einungis fyrirætlun um kæru.

Vegna framangreinds hlaut ákærumálið aldrei efnismeðferð.

Í ljósi þess að mistök höfðu átt sér stað hjá lögreglu óskaði hún eftir því við gjafsóknarnefnd að henni yrði veitt gjafsókn til að standa undir kostnaði af einkamáli hennar á hendur fyrrum sambýlismanninum. Þeirri umsókn var synjað af gjafsóknarnefnd þann 2. janúar 2018 með vísan til þess að tekjur hennar væru of háar. Í framhaldinu óskaði hún eftir fundi með dómsmálaráðherra þar sem hún fór yfir atvik málsins. Í kjölfar þess fór málið að nýju fyrir gjafsóknarnefnd sem staðfesti fyrri afstöðu sína.

Flestir hefðu gefist upp þegar þarna er komið við sögu. Rúna var hins vegar ákveðin að láta þetta ekki verða endalok málsins og ákvað að kanna möguleikann á því að höfða einkamál á hendur fyrrum sambýlismanninum sem lögreglu hafði mistekist að ákæra. Við hjá TORT tókum að okkur að skoða réttarstöðuna og varð úr að einkamál var höfðað af Rúnu á hendur fyrrum sambýlismanninum 29. nóvember 2018 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Líkt og getið er um hér í upphafi gekk dómur í einkamálinu tveimur árum seinna eða 27. nóvember sl. Þetta hefur verið löng vegferð þar sem hluti af málinu hefur þegar hlotið efnismeðferð Landsréttar. Niðurstaðan er hins vegar skýr þar sem segir um háttsemi fyrrum sambýlismannsins: „Með framangreindri háttsemi hefur stefndi bakað sér bótaábyrgð gagnvart stefnanda […] háttsemi stefnda var fólskuleg og stóð nokkuð lengi yfir á sameiginlegu heimili þeirra sem átt að vera griðastaður stefnanda“. Af forsendum dómsins er ljóst að fyrrum sambýlismanninum hefði verið gerð refsing ef ákæran hefði fengið efnismeðferð. Þá er jafnframt ljóst að í sama máli hefðu Rúnu verið dæmdar bætur án þess að þurfa að standa sjálf í málshöfðun fyrir dómi.

Við hjá TORT erum stolt af því að hafa fengið að taka þátt í þessari vegferð með Rúnu og óskum henni til hamingju með niðurstöðuna sem aldrei hefði fengist nema fyrir þrautseigju hennar. Mikinn lærdóm má draga af þessu máli. Í fyrsta lagi verður að gæta að því að skýrslur af kærendum heimilisofbeldis þurfi ekki að endurtaka. Ef það er gert verður að varast að kærandi sé látinn taka að nýju afstöðu til kærunnar en ella að vera ljóst að það sé vilji viðkomandi að falla frá henni. Þannig verður að vera fullkomlega ljóst, áður en tilkynnt er um að rannsókn sé hætt, að það sé endanlegur vilji kæranda en ekki afstaða sem ræðst af hugarástandi viðkomandi á þeirri stundu. Í því sambandi ber til þess að líta að þolendur heimilisofbeldis ganga í gegnum gríðarlegt andlegt álag þar sem þeir þrá það helst að áreitið sem því fylgi hverfi. Þá verður að gera kröfu til þess að málin dragist ekki hjá lögreglu en eitt og hálft ár leið frá árásinni og þar til ákæra var gefin út. Líkt og áður hefur verið rakið var ákærunni vísað frá dómi. Þá má það ekki gerast aftur að ákæruvaldið áfrýji máli sem þessu of seint með þeim afleiðingum að málið hljóti ekki efnismeðferð fyrir æðri dómi.

Þrátt fyrir alvarleika málsins er niðurstaðan fagnaðarefni enda þótt hún komi rúmlega fimm árum eftir atvikið. Þá sýnir hún að hægt er að reka einkamál á hendur ofbeldismanninum enda þótt það sé ekki það sem þolendur ofbeldis óskar sér að þurfa að gera. Ef það reynist nauðsynlegt vegna mistaka við ákæru er rétt og eðlilegt að kærandi fái gjafsókn til slíkrar málshöfðunar. Til þess þarf lagabreytingu.