Skjólstæðingur TORT fær fullar bætur vegna vinnuslyss sem varð er hann féll í lyftuopi

Þann 3. maí síðastliðinn féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem Guðbjörg Benjamínsdóttir lögmaður hjá TORT rak fyrir skjólstæðing lögmannsstofunnar. Tryggingafélagið ákvað að una dómnum og er hann því endanlegur.

Málavextir eru þeir að skjólstæðingur TORT slasaðist alvarlega í vinnuslysi þegar timburvinnupallur í lyftuopi féll undan honum og hann féll niður um nokkra metra. Tryggingafélag vinnuveitanda viðurkenndi einungis bótaskyldu að hálfu vegna ætlaðrar eigin sakar tjónþola. Af hálfu lögmannsstofunnar var byggt á því að ekki væri rétt að skerða bætur, enda yrði slysið að öllu leyti rakið til sakar vinnuveitanda. Í dómi héraðsdóms var talið að vinnuveitandi bæri hallann af sönnunarskorti um aðstæður á slysstað og lagt var til grundvallar að starfsmönnum vinnuveitanda hafi verið kunnugt um að tjónþoli talaði hvorki íslensku né ensku og að hann var nýr á vinnustaðnum. Var talið ósannað að tjónþoli hefði fengið skýr fyrirmæli um framkvæmd verksins og litið til þess að þótt aðrir starfsmenn hefðu orðið varir við rangt verklag tjónþola hefðu þeir ekki reynt að stöðva hann með fullnægjandi hætti. Var því talið að jafnvel þótt tjónþoli kynni að hafa sýnt nokkurt gáleysi væri ekki rétt að skerða bótarétt hans á grundvelli réttarreglna um meðábyrgð tjónþola, en slys tjónþola varð fyrir gildistöku ákvæðis 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um að réttur starfsmanns til skaðabóta skerðist ekki vegna meðábyrgðar nema hann hafi valdið slysinu af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi. Var talið að skort hefði á verkstjórn í andstöðu við almennar skyldur sem hvíla á atvinnurekendum og verkstjórum samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Unnt er að lesa dóminn í heild sinni á heimasíðu héraðsdóms:

https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=13d83fc2-f868-4be2-97cb-f203e463de0e