Viðurkenndur réttur skjólstæðings TORT úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda vegna líkamstjóns sem hann hlaut í vinnuslysi er hann féll fram af þaki

Í dag féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem Viktoría Hilmarsdóttir lögmaður hjá TORT rak fyrir skjólstæðing lögmannsstofunnar. Tryggingafélagið ákvað að una dómi héraðsdóms þar sem viðurkenndur var réttur hins slasaða úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda vegna líkamstjóns sem hann hlaut í vinnuslysi er hann féll fram af þaki.

Samkvæmt niðurstöðu dómsins ber vinnuveitandi ríka ábyrgð og sérstakar skyldur til að tryggja öryggi starfsmanna sinna með vísan til laga nr. 46/1980 og reglna settar með stoð í þeim lögum. Þá var það áréttað í dómi héraðsdóms að fjarvist verkstjóra leysir vinnuveitanda ekki undan þeirri lögbundnu skyldu að tryggja að öryggiskröfur séu uppfylltar. Enn fremur var það staðfest í skýrslu lögreglu og umsögn Vinnueftirlitsins að engar öryggislínur, net eða vinnupallar voru á vinnustaðnum og voru engar sérstakar ráðstafanir gerðar til að tryggja öryggi starfsmanna nærri þakbrún.

Var það niðurstaða héraðsdóms að slysið mætti rekja til þess að engar fallvarnir voru á vinnustaðnum sem afstýrt hefðu getað því líkamstjóni sem hann varð fyrir við fallið.

Unnt er að lesa dóminn í heild sinni á heimasíðu dómsins:

https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=985e182b-c8d5-4eaf-af07-3848e7814add