Skjólstæðingur TORT sem slasaðist þegar vinnupallur féll fær tjón sitt bætt að fullu

Í dag féll dómur í Hæstarétti Íslands í máli sem Þorsteinn Einarsson lögmaður hjá TORT rak fyrir skjólstæðing lögmannsstofunnar.

Málavextir eru nánar þeir að skjólstæðingur TORT varð fyrir slysi þegar vinnupallur hrundi. Hinn slasaði var starfsmaður A ehf. sem hafði tekið að sér verk í fiskiskipi í eigu B. ehf. Notast var við vinnupall í eigu B ehf. sem hinn slasaði setti sjálfur upp. Þegar hann var á leið niður pallinn féll pallurinn með þeim afleiðingum að starfsmaðurinn slasaðist. Bæði tryggingafélag A og B ehf. höfnuðu bótaskyldu og bentu auk þess hvort á annað. TORT höfðaði mál á hendur tryggingafélögum beggja fyrirtækjanna til greiðslu bóta fyrir hönd hins slasaða en á því var byggt m.a. að vinnupallurinn hefði verið bilaður sem valdið hefði slysinu. Niðurstaða hæstaréttar var sú að vanrækt hefði verið að tilkynna slysið til Vinnueftirlitsins líkt og skylt er lögum samkvæmt. Slík rannsókn var talin hafa getað eytt óvissu um orsök slyssins. Þar sem skyldan til tilkynningar hvíldi einkum á vinnuveitanda hins slasaða var félagið A ehf. látið bera bótaábyrgð á slysinu en hafnað var að hinn slasaði ætti að bera hluta af tjóni sínu sjálfur líkt og krafist var af hálfu tryggingafélags A ehf.

Unnt er að lesa dóminn í heild sinni á heimasíðu dómsins:

https://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=c8012568-006e-4dc7-b4b0-8e96b917c0e1