Skjólstæðingur TORT hafði betur gegn Vátryggingarfélagi Íslands vegna vinnuslyss

Erlendum skjólstæðingi TORT lögmannsstofu voru dæmdar fullar skaðabætur vegna alvarlegs vinnuslyss sem hann varð fyrir árið 2012 er hann féll ásamt íslenskum samstarfsmanni sínum um 6 metra af þaki fiskimjölsverksmiðju. Var tjónþoli metinn með 85% örorku vegna slyssins. Tjónþoli og samstarfsmaður hans voru báðir án allra fallvarna á þakinu. Hafði tryggingafélag vinnuveitanda fallist á fulla bótaskyldu í máli samstarfsmanns tjónþola en ekki í tilviki hins síðarnefnda. Bar tryggingafélagið fyrir sig að tjónþoli hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og því bæri að skerða bótarétt hans um 1/3. Í dómi héraðsdóms var talið að verkstjórn og öryggismálum hefði verið verulega ábótavant og að sök vinnuveitanda væri svo yfirgnæfandi í samanburði við aðgæsluleysi tjónþola að ekki væri sannað að hann hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Þá var ekki talið að rök stæðu til að meðhöndla tilvik tjónþola og samstarfsmanns hans með ólíkum hætti enda væru aðstæður allar þær sömu.

Dóminn má lesa í heild sinni á heimasíðu héraðsdóms:

https://domstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=af86a3fb-46f1-4108-9c7a-3301707a5017