Fallist á árslaunaviðmið skjólstæðings Tort

Í dag gekk dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem Ólafur Örn Svansson lögmaður hjá TORT flutti fyrir skjólstæðing TORT gegn Sjóvá-Almennum tryggingum vegna afleiðinga vélsleðaslyss.

Við uppgjör bóta var deilt um hvaða tekjuviðmiðun ætti að nota við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku. Tryggingafélagið vildi taka mið af árslaunum síðustu þriggja almanaksára fyrir slysdag í samræmi við meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Því vildi skjólstæðingur TORT ekki una þar sem aðstæður hafi verið óvenjulegar hluta tímabilsins þar sem hann hafði annars vegar verið í námi hluta af tímabilinu og hins vegar nýlega hafið sjálfstæðan rekstur.

Niðurstaða héraðsdóms var sú að árslaun á viðmiðunarárum framangreindrar lagareinar gæfi ekki raunhæfa mynd af tekjuöflunarfærni hins slasaða og yrði því að slá því föstu að aðstæður hafi verið óvenjulegar líkt og haldið var fram af hálfu lögmannsstofunnar. Þannig var fallist á aðalkröfu skjólstæðings TORT um að notast við árslaun ársins 2014 eða áður en hann hóf nám og áður en hann hóf sjálfstæðan rekstur.

Með dómi héraðsdóms var tryggingafélaginu gert að greiða skjólstæðingi TORT u.þ.b. 3.500.000 kr. í bætur til viðbótar þeim bótum sem félagið hafði áður greitt auk þess sem félagið var dæmt til að greiða vexti, dráttarvexti og málskostnaði.

Hægt er að nálgast dóminn í heild sinni á heimasíðu héraðsdóms:

https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=c66490f6-57bd-4d0a-9233-ee0a4390f31d